ég man
þegar litla stelpan vaknaði snemma kannski var bara sunnudagur kannski voru páskar kannski var hvítasunna og sólin skein svo fallega inn um stóra gluggann í litla húsinu og engin var vakandi nema litla stelpan og allt var svo hljótt ekkert hljóð nema suðið í ískápnum litlu stelpunni fannst svo gott að stíga í sólarblettinn á gólfinu hann var svo hlýr og notalegur á beru tærnar og svo fór hún með annan fótinn í sólarblettinn en hafði hinn í skugganum og svo var hún með báða fæturna í skugganum og svo báða í sólinni og þannig lék hún sér að því að finna hvernig sólin hitaði litlu tærnar í hljóða húsinu á meðan allir sváfu á fallegum vormorgni og á veggjunum dönsuðu litlir regnbogar en litla stelpan gat ekki snert þá þó hún reyndi og hún lék sér við að finna sólina á tánum og skoða regnbogana dansa á teikningunni af mömmunni þegar hún var ung kona í kaupmannahöfn en skildi ekki af hverju hún gat ekki komið við þá en þeir voru svo fallegir þar sem þeir dönsuðu eftir veggnum síðan vaknaði einhver og sat með litlu stelpunni á meðan hellt var uppá kaffi og ilmurinn fyllti litla húsið og áfram dönsuðu regnbogarnir þegar leið á morguninn fóru regnbogarnir inn í eldhús og dönsuðu fyrir ofan eldavélina og pabbinn sagði litlu stelpunni að sólin og ljósakrónan gerðu þessa fallegu regnboga bara fyrir hana á meðan hann drakk kaffið sitt í morgunkyrrðinni og litla stelpan vissi þá að þetta yrði góður dagur af því sólin og pabbinn og ljósakrónan og kaffiilmurinn létu henni líða svo vel þarna í þögninni í litla húsinu með stóra glugganum
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home